Karatefélag Reykjavíkur

Lög

Lög Karatefélags Reykjavíkur

1. gr.

Nafn félagsins er Karatefélag Reykjavíkur. Heimilisfang og varnarþing er í Reykjavík. Nafn félagsins er skammstafað K.F.R. Félagið er aðili að Íþróttabandalagi Reykjavíkur, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands og International Okinawan Goju-Ryu Karate-do Federation.

2.gr.

Tilgangur félagsins er að stuðla að útbreiðslu Karate-íþróttarinnar á Íslandi, m.a. með því að kynna íþróttina fyrir almenningi og gefa félagsmönnum kost á því að stunda æfingar undir handleiðslu bestu fáanlegu kennara eftir því sem við verður komið.

3.gr.

Stjórn félagsins skipa 5 menn, formaður, gjaldkeri, ritari og tveir meðstjórnendur. Stjórnin skal kosin á aðalfundi ásamt tveimur varamönnum og tveimur endurskoðendum. Skulu varamenn taka sæti í stjórninni ef aðalmanna missir við. Stjórnin skal kosin skriflega til eins árs í senn. Stjórninni ber að gæta hagsmuna félagsins í öllum greinum. Hún hefur umráðarétt yfir eignum félagsins, boðar til funda, ákveður íþróttaiðkanir og mót og sér um allan rekstur félagsins. Stjórnin skal setja sér skriflegar verklagsreglur, þar sem fram komi skipurit og verkskipting milli einstakra stjórnarmanna og trúnaðarmanna félagsins.

4.gr.

 Aðalfund félagsins skal halda í mars-apríl ár hvert. Skal þar lögð fram skýrsla stjórna og reikningar, kosin stjórn, endurskoðendur og aðrir trúnaðarmenn félagsins. Þar skulu ákveðin árgjöld félagsmanna.

5. gr.

Stjórn félagsins getur umsvifalaust vikið hverjum þeim úr félaginu, sem gerist brotlegur við eftirfarandi:

1. Greiðir ekki tiltekin gjöld félagsins.
2. Gerist brotlegur við almenn hegningarlög.
3. Hegðar sér ósæmilega að mati stjórnar.
4. Sýnir af sér þá hegðun utan æfinga og kennslutíma að heiðri félagsins sé miðboðið. Sérstaklega er stjórn félagsins skylt að víkja tafarlaust úr félaginu þeim sem misnotað hafa karate.

6.gr.

Verði félagið lagt niður skulu eignir þess renna til Íþróttabandalags Reykjavíkur til varðveislu uns annað félag með sömu markmið verður stofnað í Reykjavík.

7. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi og má aðeins breyta þeim á aðalfundi félagsins.
.