Karatefélag Reykjavíkur

Norðurlandamótið 1985

Norðurlandamótið 1985

Norðurlandamótið í karate var haldið í Reykjavík 19. október 1985.Ákvörðun um mótshald. Eftir NM 1984, sem haldið var í Karlstad í Svíþjóð, var komið að Dönum eða okkur að halda næsta mót. Danir mættu ekki í Karlstad, svo boltinn var hjá okkur. Alltaf af og til var málið rætt hjá landsliðsnefndinni, sem var undanfari Karatesambandsins og síðan aftur stjórn KAÍ, en menn töldu útséð eftir hálf-mislukkað íslandsmót í apríl 1985, að við gætum alls ekki ráðist í slíkt stórmót sem NM væri á okkar mælikvarða. Endaleg ákvörðun var síðan tekin í maí-byrjun í vor með hálfum huga. Bréf voru send til hinna norðurlandanna og þá varð ekki aftur snúið, NM 1985 í Karate yrði haldið í Reykjavík 19. október.

Frumundirbúningur mótsins. Það háði mótsstjórninni ávalt í undirbúningi mótsins, að enginn hafði nokkru sinni svo mikið sem horft á stórmót í Karate, svo menn þurftu mikið til að láta hugmyndaflugið ráða ferðinni. Að vísu höfðu íslenskir keppendur farið á slík mót, en þá með því hugarfari til að keppa, en ekki til að spá í framkvæmd mótsins. Mótsstjórnin þræddi þó garnir þessara manna og gat dergið fram sitt að hverju sem að gagni kom. Frmundirbúningur mæddi á stjórn KAÍ, eins og læg gera ráð fyrir. Fyrst var ráðist í að kanna hvort einhver fyrirtæki væru tilbúin til að láta fé af hendi rakna til mótsins, gegn auglýsingu að sjálfsögðu. Fyrsta fyrirtækið var Toyota-umboðið og var strax hafist handa við að prenta aðgöngumiða og fékk Toyota þar nafn þessarar ágætu bifreiðartegundar skráð á aðgöngumiðana. Eftir að þessu verki var lokið var hægt að snúa sér að næsta skrefi sem var fjáröflun fyrir mótið.

Fjáröflun fyrir mótið. Í júlímánuði var það boð látið út ganga til allra félagsmanna í  karatefélögunum að mæta á fund með stjórn KAÍ. Á fundinn mættu um 20 manns og var hverjum og einum falið að safna aurum í einhverju ákveðnu borgarhverfi. Útbúnir höfðu verið mismunandi dreifibréf og auglýsingatilboð og fólkið látið einbeita sér að vissum þáttum fyrir hin mismunandi fyrirtæki. Tveimur vikum seinna skiluðu menn að sér pynglunni og var árangur misjafn, Sumir félagsmenn og stjórnarmenn KAÍ vour furðanlega seigir að redda auglýsingum, og alltaf þykknaði veski gjaldkerans. Þegar upp var staðið kom mótið út í hagnaði, þó ekki væri hann stórvægilegur, en það var nú markmiðið að forðast tap. Seld voru eftirtalin auglýsingatækifæri: a) Auglýsingar í mótsskrá. b) Styrktarlínur í mótsskrá. c) Styrkataraðilar sem ekki vildi láta nafn síns getið. d) Auglýsing á keppnisnúmer, e) Auglýsing á aðgöngumiðum. f) Auglýsingar á móttsvæðiðnu sjálfu. g) Gefendur verðlaunagripa. Að öðru leiti er hægt að fá upplýsingar um þennann þátt mótsins í yfirliti gjaldkera hér annarsstaðar í skýrslunni.

Starfsmannahald. Þegar um einn mánuður var í mótið, var kominn tími til að hóa sama væntanlegu starfsfólki mótsins. Boð voru látin ganga til allra sem hlut gátu átt að máli. Fundir starfsmannahaldsins voru haldnir í fundarsal Gerplu og var þar oft þröngt á þingi. Á fyrstu fundina mætti ótrúlegur fjöldi fólka. Um 50-60 manns buðu fram starfskrafa sína. Því næst voru um 40 skipaðir í stöður mótssins, skipaðir voru.: Framkvæmdastjóri, gjaldkeri, aðalritari, 3 ritarar, 3 tímaverðir, 5 túlkar eða tengiliðir við hverja þjóð, 4 aðstoðarritarar, 6 í verslun KAÍ, 2 tuskustjórar, 5 vallarstjórar eða merkingarmenn, 6 viktarar, 4 í verðlaunaafhendingu, 3 í vídeóupptöku, 2 í mótaskránna og loks læknir og aðstoðarmaður hans. Á staðinn komu einnig hjálparsveitarmenn til aðstoðar. Fæstir starfsmenn hæfðu haft kynni að því að starfa á karatemóti, svo nú tók við þjálfun starfsliðsins. Fundir voru haldnir í gríð og erg. Aðalritari mósins, Karl Gauti Hjaltason sá um starfsmannaþjálfunina og pappírsvinnuna fyrir mótið. Hannes Hilmarsson Framkvæmdastóri NM sá um fjáröflunina og heidarundirbúning fyrir mótið. Gjaldkerinn Davíð Haralds sá að sjálfsögðu um greiða reikninga og rukka inn tekjur. Allri þeir sem unnu að mótinu stóðu sig framar öllum vonum. Það má líkja starfsmönnum mótsins í heild við vel smurða og góða vél, allt gekk upp og þegar óvænt atriði komu uppá þá brást þessi sama vél við eins og aðrar góðar vélar, skipti var niður um einn gír og von bráðar var ófæran að baki. Ritarar stóðu sig vel, en það starf var eitt það annasamansta á mótinu, öll úrslit frá svæðunum bárust jafnóðum og voru yfirleitt ótvíræð. Mótið var allt tekið upp á videó, enda lifum við á videóöld og annað ekki fært, en KAÍ eigi slíkt stórmót á videorúllu.

Fundarhöld fyrir mótið. Á þennan þátt hef ég nú þegar minnst nokkuð. Í fjáröflunarstarfinu um sumarið voru haldnir um 6-8 fundir með söfnunarmönnum. Stjórn KAÍ hæelt fjölda funda um vorið og fram á sumar og þeir fundir voru að mestu leiti helgaðir mótinu, lauslega áætlað haf verið um 10 fundir. Starfsmannafundir síðustu tvær vikurnar hafa verið ca. 8. Haldinn var einn blaðamannafundur 5 dögum fyrir mótið og einn fundur til undirbúnings á þeim fundi. A.m.k. 4 fundir voru haldnir til að setja saman mótsskrána og plaggatið. Dómarafundur var haldinn með dómurum allra landanna daginn fyrir mótið til að samstilla dámarana. Allt í allt hafa því verið haldnir ca. 30-35 fundir fyrir mótið. Það er því ljóst að gífurleg vinna hefur verið innt af hendi til undirbúnings á þessu fyrsta stórverkefni nýstofnaðs Karatesambands.

Þátttaka Norðurlandanna. Frá upphafi var það ljóst að mikil áhöld voru um þátttöku Danmerkur á þessu móti. Bréf voru send til allra landanna fjögurra strax í maíbyrjun, eins og fyrr segir. Þátttökutilkynningar áttu að berast fyrir 15. sept.  Svíþjóð og Finnland sendu inn lista yfir keppendur í september en Noergur var nokkuð seinn fyrir og barst bréf frá Noregi ekki fyrrr en viku fyrir mótið. Bréf barst aldrei frá Danmörku og var því slegið föstu nokkrum dögum fyrir mótið að þeir myndu ekki vera með. Þeir höfðu heldur ekki látið sjá sig í Karlstad 1984, og var sú ástæða gefin upp þá að á sama tíma hefði verið Danmerkurmeistaramót. Enn hefur okkur ekki borist upplýsingar um ástæðu til fjarveru þeirra. Þátttaka hinna landanna var góð, og sendu þau flest um 12-15 keppendur.

Landslið Íslands í Karate. Landsliðshópurinn hóf æfingar sameiginlega fljótlega í september, en fyrir þann tíma höfðu menn æft stíft, hver í sínu félagi. Hópurinn taldi um 15 manns og voru það þeir sem síðan kepptu á mótinu. Ólafur Wallevik sem hefur verið landsliðsþjálfari íslenska landsliðsins í Karate frá því vorið 1984, kom hingað til lands 10 dögum fyrir mótið og voru æfingar daglega undir hans stjórn. Hann lét síðan af störfum strax eftir mótið og hafði það varið yfirlýst markmið hans frá því að hann tók við landsliðinu að fylgja því að þessu móti og reyna að ná sem bestum árangri á þessu tímabili. Það er skoðun stjórnarinnar að vel hafi til tekist og Ólafur verið ómetanlegur þáttur í vexti og uppgangi Karateíþróttarinnar á meðan hún hefur verið að slíta barnsskónum. Hann hefur haft aðsetur í Noregi vegna vinnu sinnar, og einmitt þess vegna verið nær lífæðum íþróttarinnar og getað selflutt nýjungar jafnóðum til mörlandans. Við viljum þakka honum gott og óeigingjarnt starf í þágu Karateíþóttarinnar á liðnum árum.

Landslið Íslands

Mótsskráin. Ákveðið var að gefa út mótsskrá sem afhent yrði með aðgöngumiðum. Það vildi svo vel til að gamall Karatejaxl, Þór Ólafsson, vann í prentsmiðju og var hann okkur mjög innan handar við gerð mótsskrárinnar. Þór sýndi mikinn áhuga og mætti á marga fundi til að gefa faglegar ráðleggingar. Upp kom nokkuð erfið aðstaða þegar átti að setja saman forsíðu skrárinnar. Menn voru ekki á eitt sáttir og þar kom að Davíð Haralds að setja hnefann í borðið til stuðnings sinni tillögu að forsíðu. Það nægði og nú prýðir hugmynd hans forsíðu mótsskrárinnar og næstu kynslóð til vitnis um listfengi gjaldkerans. Það má með sanni segja ef litið er á mótsskrár síðustu NM-móta að okkar skrá ber af og er þá vægt til orða tekið, en sjálfsagt er þetta ekki hlutlaust mat. Davíð gekk vel að prútta um verðið á skránni og kom því niður í 27 þúsund sem verður að teljast vel af sér vikið.

Verðlaunagripir. Stærsti útgjaldaliður NM voru verðlaunagripir mótsins og vissu menn fljótlega að svo myndi verða. Verð var athugað víða í bænum og úti á landi. Aðalritarinn fékk það hlurverk að gera hagstæð innkaup að þessu leyti. Hann afréð fljótlega að versla við Ísspor, því þar virtist vera hægt að semja um mestann afslátt, auk þess sem verðið var almennt lægst þar. Að lokum fór svo að keyptir voru gripir fyrir 49 þúsund, en raunvirði þeirra var um 80 þúsund. Til viðmiðunar kostuðu gripirnir á íslandsmótinu milli 30 og 40 þúsund. Þetta fannst okkur vel sloppið. Raunar fannst okkur þetta óþarfa bruðl og vildum helst kaupa peninga fyrir öll sæti nema NM- meistaratitla, en sú venja hafði víst spapast að það væri bikar fyrir öll 4 fyrstu sætin í öllum flokkum sem voru 11 fyrir utan sveitakeppnina. Við skárum að vísu nokkuð niður því afráðið var að hafa pening fyrir 4. sætið. Ekki heyrðum við neina óánægju með þá ákvörðun okkar. Margir lýstu yfir ánægju sinni með fegurð gripanna.

Veifur og blóm. Ákveðið var að færa öllum keppendum flagg að gjöf til minningar um mótið. Á flaggið var prentað merki KAÍ og nafn mótsins og mótsstaður Reykjavík. Að auki voru allir fánar landanna fimm þrykktir í flaggið. Afhending þessi mæltist vel fyrir og er þetta nýlunda á NM. Um leið og veifa þessi var afhent fengu keppendur og dómarar blóm að gjöf frá Karatesambandinu, allt var þetta til að setja skemmtilegann svip á mótið og skapa stemmingu. Fyrirtæki hér í borg, Fjölprent hf. sá um gerð flagganna og eru þau vel unnin og er þetta góð leið til að halda uppi minningu ýmissa atburða líðandi stundar, auk þess sem þetta getur gefið krónur í kassann.

Dagskrá mótsins. Viku fyrir mótið var dagskrá mótsins sett saman, þar eins og annarsstaðar háði það mótsstjórninni reynsluleysi, svo dagskráin var gerð án neinnar fyrirmyndar. Reiknað var með að undanúrslit yrðu frá kl. 10-13.33. Sú áætlun stóðst og meira til, þeim var lokið um kl. 13.00. Þá áttu Glímumenn úr KR að leika listir sínar, en þeir tilkynntu forföll. Úrslit voru áætluð kl. 14.00 – 19.00. Þeim var lokið klk. 16.45, eða rúmum tveimur klukkutímum fyrir áætlaðann tíma. Það má því segja að geta okkar til þessa mótshalds hafi verið stórlega vanmetin,svo vel gekk mótið.Það eina sem að dagskránni lítillega að því leyti að kata keppninni var flýtt og sett á undan sveitakeppninni.Það mæltis vel fyrir og fengu þátttökuþjóðirnar þessar breytingar fljótt og örugglega í gegnum tengiliðina.

Gangur mótsins. Keppt var á tveimur völlum í undanúrslitum, en á einum velli í úrslitum. Þetta nægði, og var það kannski líka vegna þess að Danmörk mætti ekki til keppni. Í upphafi mótsins voru menn mjög spenntir að sjá hvernig mótið gengi og hvort dagskrá myndi haldast, venjulega eru Íslensk karatemót langt á eftir áætlun. Þegar fyrsti hálftíminn var yfirstaðinn var ljóst að dagskrá myndi haldast og eftir það gekk allt eins og í grófri lygasögu. En af hverju gekk mótið svo vel? Mín skoðun er sú að þar spili margir þættir inní.; í fyrsta lagi voru allir starfsmenn vel með á nótunum um sitt starfssvið og ekki skortir þá viljann til að gera vel. Skipulag var mjög gott á ritaraborðunum þar sem aðal-stresspunkturinn var. Dómarar voru fljótir og ekki þetta þras og töf sem einkennir vanmenntaða íslenska dómara. Og kannski var það líka stór þáttur í hve vel mótið gekk að fólk var hrætt við að allt færi í Kaos, og lagði sig þessvegna kannski betur fram en ella. Formaður KAI, Hannes Hilmarsson sá um öll fjölmiðlatengsl á mótinu og vann þar mikið og gott starf, sem nauðsynlegt er að sé sinnt á slíkum mótum.

Áhorfendur. Mikil vinna hafði verið lögð í að auglýsa mótið upp. Haldinn hafði verið blaðamannafundur eins og fyrr hefur verið greint frá og komu greinar í öllum blöðum, útvarp og sjónvarp sögðu frá því sem framundan var og plaggöt héngu um allan bæ. Alls komu um 600-700 manns til að horfa á mótið. Í úrslitum voru um 400-500 manns á pöllunum í Laugardalshöllinni og hvöttu okkar menn óspart, enda gekk þeim mun betur þá, heldur en um morgunin þegar fáir áhorfendur voru. Sveinn Björnsson forseti ÍSÍ mætti á staðinn og fylgdist með mótinu stundarkorn. Gamlir karateiðkendur komu eftir margra ára fjarveru frá íþróttinni. Faðir Karate á Íslandi, Reynir Santos fylgdist með keppninni og aðstoðaði kynninn þar sem hann gataði í enskukunnáttunni.

Árangur Íslands og keppendur fyrir Íslands hönd. Ég get að mestu vísað til úrslita hér annars staðar í skýrslunni í samband við árangur Íslands á þessu móti. Besti árangurinn er óumdeilanlegur frammistaða Árna Einarssonar í Kata, en þar hlaut hann bronsverðlaun. Árni er sannarlega að verða sterkur Katamaður og væri vert að beina athyglinni meira að Kata heldur en verið hefur hérlendis með tilliti til þátttöku á mótum erlendis í framtíðinni.

Árni Einarsson náði 3ja sæti í kata.

 Það sem úrskeiðis fór á mótinu. Ég vil taka það fram í upphafi að mótið tókst mjög vel, óhætt er að segja að um 99% af mótinu hafi farið vel og eftir áætlun. Hér í þessum kafla ætla ég því að tína til þetta 1% sem úrskeiðis fór.
a) Það uppgvötaðist í byrjun mótsins að gleymst hafði að útvega rauð keppnisbelti, því var reddað samstundis.
b) Óhagstætt var að nota nælur í keppnisnúmerin, límband er betra.
c) Sumir keppendur voru með röng keppnisnúmer.
d) Gleymdist að færa dómurum mótsins mat í hléinu.
e) Úrslitum í einum keppnisflokknum skolaðist til og röngum manni var afhent bronsverðlaunin, en það var leiðrétt.
f) Starfsfólk og sumir áhorfendur röðuðu sér of nálægt keppnisvellinum í lokin. Girða hefði þurft svæðið af.
g) Sveitakeppnin hefði átt að vera á undan einstaklingskeppninni.
h) Illa heyrðist í kynni vegna lélegra hljóðgæða.

Meiðsli á mótinu. Lítið bar á meiðslum á mótinu. Alls voru glímdar 80 glímur og urðu tvö slys á íslensku keppendunum. Einn nefbrotnaði og annar skaddaðist á auga. Þeir hafa báðir náð sér fullkomnu nú þrem vikum eftir mótið. Ekki er okkur kunnugt um meiðsl meðal erlendu keppendanna, nema mar og slíkt.

Dómarar. Mótsstjórnin ákvað snemma í sumar að fá hingað til lands dómara erlendis frá til að dæma fyrir íslands hönd. Núverandi heimsmeistari í sveitakeppni Gerry Flemming var fenginn til þess starfs. Hann stóð sig vel sem dómari á mótinu og var líklega einn besti dómarinn á mótinu. Auk þess þjálfaði hann landsliðið ásamt Ólafi síðustu dagana fyrir mótið. Aðrir dómarar voru frá Noregi einn,Svíþjóð einn og tveir frá Finnlandi. Töldu margir að sumir dómarar hefðu sýnt hlutdrægni, og var þar oftast minnst á Finnsku dómarana. Það er algjör nauðsyn á því að Ísland eignist dómara í næstu framtíð, slíkt getur skipt höfuðmáli fyrir gengi okkar á alþjóða mótum framtíðarinnar. Ekki vegna þess að hann myndi dæma Ísland í hag, heldur vegna þess að þá myndi fyrst verða hlustað á Ísland, ef menn vissu að við við værum með menntaðann dómara á staðnum.

Dómarar á mótinu.

Fagnað eftir mótið. Um kvöldið var farið í veitingahúsið Broadway, sem boðið hafði öllum keppendum á mótinu ókeypis aðgang. Þar var fagnað yfir sigrum dagsins og lagt á ráðin með sigra næst.

Umfjöllun fjölmiðla. Blöðin fjölluðu mikið um mótið og greindu flest blöðin frá úrslitum á 2-4 síðum, strax eftir helginna. Þar voru viðtöl við íslensku keppendurnar, landsliðsþjálfarann og mótsstjórnina. Umfjöllun blaðanna var með mjög jákvæðum hætti. Sjónvarpið sýndi frá mótinu samdægurs í 2. klst og síðan í næstu tveimur íþróttaþættum þar á eftir. Einnig kom smá bútur í fréttatíma sjónvarpsins um kvöldið. Stjórn KAI er mjög ánægð yfir viðtökum fjölmiðla og þakkar þeim sérstaklega góðann skilning og frásagnir af mótinu.

Viðtökur almennings. Norðurlandamótið vakti mikla athygli meðal almennings. Það má segja að kastljósum íþróttanna hafi verið beint að karateíþróttinni í um vikutíma eftir mótið. Fólk vildir fá að vita meira um þessa íþrótt og ýmist hreyfst það að kata eða kumite. Sumir töldu að of mikil harka væri leyfð í kumitekeppninni og má það til  sanns vegar færa. Athugandi væri hvort ekki sé fært að herða reglur í þá átt að refsa meira fyrir of mikla snertingu. Eininng töldu margir að hlutur Kata væri of lítill á mótinu á móti Kumite. Ráð væri að taka upp Hópkata á NM, á hana er fallegt að horfa og það væri til þess að margir færu að spá í stigagjöf dómara líkt og t.d. fimleika, jafnvel þó þeir væru bara leikmenn, heima í stofu að horfa á sjónvarp.

RISASKREF FYRIR KARATEÍÞRÓTTINA.
NM í Karate er yfirstaðið og það er að mesta fjarað út eftir mótið. En hvert hefur þetta mótshald leitt okkar? Karatesambandið fékk þarna sýna eldskírn og stóðst hana með miklum sóma. Út úr mótinu komum við þreyttir en ánægðir. Þegar þreytan líður úr er aðeins ánægjan eftir, orka safnast saman til nýrrar átaka og nú með reynsluna í farangrinum. Slíkur árangur næst ekki nema með góðri samvinnu allra sem starfa og málefninu. Samvinnan á NM var til fyrirmyndar. Nýfætt og ómalga samband stóðst eldskírna.                                                 Til hamingju KAI.

 

Úrslit urðu:-60 kg kumite karla:
1. Christian Kiel, Svíþjóð
2. E. Eide, Noregur
3. Stein Rönning, Noregur
4. A. Rasanen, Finnland

-65 kg kumite karla:
1. Janne Timonen, Finnland
2. Arild Lund, Noregi
3. Atli Erlendsson, Ísland
4. Karl Sigurjónsson, Ísland

-70 kg kumite karla:
1. Kim Waenerberg, Finnland
2. Flavio Donatello, Svíþjóð
3. Stefán Alfreðsson, Ísland
4. Gísli Pálsson, Ísland

-75 kg kumite karla:
1. Tomas Hallman, Svíþjóð
2. Marrku Partanen, Svíþjóð
3. I. Koljander, Finnland
4. M. Alstadsather, Noregur

-80 kg kumite karla:
1. Göran Tell, Svíþjóð
2. Jóhannes Karlsson, Ísland
3. Björn Nyborg, Noregur
4. A. Engh, Noregur

+80 kg kumite karla:
1. Karl Daggfelt, Svíþjóð
2. Jouko Turunen, Finnland
3. Leslie Jenssen, Svíþjóð
4. Ari Viljarna, Finnland

-53 kg kumite kvenna:
1. Sari Kauria, Finnalnd
2. Sari Laine, Finnland
3. Anita Myhren, Noregur
4. Kristín Einarsdóttir, Ísland

-60 kg kumite kvenna:
1. Ritva Varelius, Finnland
2. Nina Johansen, Noregur
3. S. Hansen, Noregur

+60 kg kumite karla:
1. S. Nygaard, Noregur
2. K. Lunde, Noregur
3. Yrsa Lindqvist, Finnland

Liðakeppni karla:
1. Finnland
2. Noregur
3. Svíþjóð
4. Ísland

Liðakeppni kvenna:
1. Finnland
2. Noregur

Kata karla:
1. Paul Kee, Svíþjóð
2. Conny Ferm, Svíþjóð
3. Árni Einarsson, Ísland
4. Erik Raittinen, Finnland

Kata kvenna:
1. Lena Svenson, Svíþjóð
2. Yrsa Lindqvist, Finnland
3. Tove Monni, Finnland
4. Jónína Olesen, Ísland

 

.