Karatefélag Reykjavíkur

Sveitakeppni karatefélaga 1982

Sveitakeppni karatefélaga 1982

 

Fyrsta liðakeppni Íslands í karate var haldin laugardaginn 9. apríl síðastliðinn. Þar áttust við 7 fimm manna lið frá 4 karatefélögum. Frá Karatefélagi Reykjavíkur komu 3 lið, frá Shotokan Karatefélaginu tvö og eitt frá hvoru um sig, Karatedeild Gerplu og Karatedeild Stjörnunnar en lið Karatefélags Selfoss, sem hafði skráð sig til keppninnar, mætti ekki.

Keppt var eftir útsláttarfyrirkomulagi þannig að í fyrstu umferð féllu úr lið Gerplu, C-lið KFR og B-lið SKF. Fyrsta keppnin var milli A-liðs SKF og C-liðs KFR. Hana unnu þeir SKF-menn með yfirburðum, en C-liðið stóð sig allvel miðað við reynsluleysi. Síðan áttust við Stjarnan og B-lið Shotokan félagsins. Það var jöfn og spennandi keppni en þar sem einn maður SKF mætti ekki til leiks fóru Stjörnumenn með sigur úr býtum því að fimmti maður þeirra vann keppnislaust. Nokkuð bar á reynsluleysi eins og áður en vonandi stendur það til bóta. B-lið KFR sigaði síðan Gerplu með yfirburðum, enda allmiklu reyndari menn. Vöktu tvær keppnir sérstaka athygli. Önnur var á milli Bjarna Jónssonar, KFR-B, og Sveinbjarnar Imsland, Gerplu. Sveinbjörn er hávaxinn , um 190 cm en Bjarni um 165 cm. Báðir eru þeir með brúnt belti. Töldu menn að Sveinbjörn myndi geta notað sér handleggjalengd sína, en annað kom upp á bátinn. Bjarni sótti af hörku og harðfylgi og sigraði eftir stuttan bardaga. Í hinni keppninni fékkst Hjalti Árnason, KFR, við Ævar úr Gerplu. Báðir eru þeir stórir menn og þreknir, en Hjalti gerði fljótt út um keppni með gífurlegri sókn svo að keppnin varð nánast samfelldur flótti af Ævars hálfu. Enda tók keppnin ekki nema 17 sekúndur.

Í annarri umferð keppti A-lið KFR við Stjörnuna frá Garðabæ. KFR sigraði með miklum yfirburðum, enda talsvert reynsluríkari. Þó vakti mikla kátínu er Stefán Alfreðsson, KFR, sem er þjálfari Stjörnunnar, tapaði keppni við nemanda sinn á hansoku eða refsistigi. Það varð honum til falls að hafa æft sig vel með hnjám og olnbogum sem er bannað að nota í keppni. Hann var í sókn með hálft stig yfir þegar hann lét ósjálfrátt hné fylgja kviði, í bókstaflegri merkingu. Nemandinn hné niður og var Stefáni dæmt refsistig. Vann Stjarnan þannig sína einu keppni. Þetta voru leiðinleg mistök sem gerast vonandi ekki aftur.

Síðan keppti KFR-B við SKF-A og var það að margra dómi mest spennandi keppnin, geysilega jöfn og hörð. Fyrst áttust þeir við, Ásgeir Ólafsson, KFR, og Ólafur Wallewik frá Noregi sem keppti fyrir hönd SKR. Keppnin var mjög skemmtileg til að byrja með og náði Ólafur fyrsta stiginu með gyaku-zuki. Síðan varð honum á að stökkva beint á móti sterku oi-zuki Ásgeirs og steinlá. Blæddi mikið úr munni hans og nefi og var Ásgeiri dæmt refsistig. Ólafur jafnaði sig fljótt, en var ekki leyfta að halda áfram keppni. Atvikið var sérlega leiðinlegt vegna þess að Ólafur var nýstaðinn úr sjúkrahúslegu vegna heilahristings sem hann hlaut í keppni í Noregi og var enn ekki búinn að jafna sig fyllilega. Er vonandi að þetta hafi engar slæmar afleiðingar.

Síðan kepptu Hákon Möller, KFR, og Karl Sigurjónsson, SKF. Var keppnin jöfn og góð og Karl sigraði með 2 wazaari gegn einu. Næst kepptu Bjarni Jónsson og Karl Gauti, SKF. Lyktaði þeirri keppni með jafntefli, hálfu stigi gegn hálfu. Svo kepptu Kristjón Þorkelsson, KFR, og Þórður Antonsson, SKF. Vakti athygli hve stíll þeirra var ólíkur. Þórður nota mikið spörk, stökk og snúninga en Kristjón kýs að standa kyrr og nota hendurnar. Kristjón sigaraði með 2 wazaari gegn einu. Síðasta keppnin var á milli Hjalta Árnasonar og Gísla Klemenzsonar, SKF. Hjalti sótti gífurlega fast eins og hans er vandi og skoraði fljótt wazaari. Í annarri sóknarlotu þegar hann elti andstæðing sinn sló Gísli til hans uraken svo að vörin sprakk undan og var Gísla dæmt hansoku fyrir það.

Þegar upp var staðið reyndust stigin standa hnífjöfn, 2 vinningar gegn 2 og stigin jafnmörg hjá báðum liðum. Var því valinn einn maður úr hvoru liði til að heyja lokabaráttuna. Kepptu þá Ásgeir Ólafsson og Gísli Klemanzson. Gísli sigraði eftir að hafa skorað eitt wazaari og Ásgeiri hafði verið dæmt einn eitt refsistig. Er greinilegt að Ásgeir verður að passa sig í framtíðinni.

Í úrslitum áttust því við A-lið KFR og A-lið SKF. Var það ójafnari leikur en við mátti búast því að KFR vann allar keppnirnar auðveldlega utan eina sem lyktaði með jafntefli.

Í fyrstu keppninni vann Helgi Þórhallsson, KFR, með 2 wazaari gegn engu, á móti Vigni, SKF, sem kom í stað Ólafs Wallewik. Stóð keppnin í 20 sek. Næst vann Stefán, KFR, Karl Gauta, SKF, mrð wazaari og fallegu jodan mawashi-geri sem skoraði ippon. Síðan börðust Ómar Ívarsson, KFR, og Karl Sigurjónsson, SKF. Gerðu þeir jafntefli, wazaari gegn wazaari. Gáfu þau úrslit í rauninni ranga mynd af keppninni því Ómar tapaði mörgum stigum á því að gríða sífellt þi andstæðing sinn, sem er ekki leyft. Næst keppti Árni Einarsson, KFR, við Þórð Antonsson og vann hann á wazaari plús ippon sem hann skoraði einnig með jodan mawashi-geri. Í síðusta viðureign dagsins sigraði Atli Erlendsson, KFR, Gísla Klemenzson með 2 wazaari gegn engu.

Komu úrslitin í raun fáum á óvart, enda er A-lið KFR skipað svartbeltingum eingöngu, þar af tveimur með 2, dan og eiga þeir allir margra ára æfingar að baki. Öll liðin stóðu sig vel og helstu gallarnir voru vegna reynsluleysis. t.d. voru margir ávíttir fyrir að fara út fyrir keppnissvæðið, fyrir að grípa og fyrir að slá of fast í andstæðing. Þetta á örugglega eftir að batna með komandi árum.

Áhorfendur voru fáir en góðir og hvöttu þeir sína menn óspart svo að stemmingin var mjög skemmtileg. Sensei Steve Cattle, 5. dan, og Steinar Einarsson, 1. dan, sáu um dómgæsluna og fórst það vel úr hendi. Sensei Cattle lét góð orð falla um mótið er því var lokið og sagði það ágæta frumraun.

Úrslit mótsins urðu sem hér segir:

1. sæti Karatefélag Reykjavíkur A
2. sæti Shotokan Karatefélagið A
3. sæti Karatefélag Reykjavíkur B

Mótsritari,
Helgi Magnússon, 1. dan, KFR.

Úr fréttabréfi KFR apríl 1982..