Landskeppni Ísland – Svíþjóð 1985
Þann 28. mars var flogið frá Keflavík til Osló. Þaðan var tekin lest til Gautaborgar þar sem keppnin átti að fara fram. Landslið Íslands var þannig skipað að þessu sinni: Fyrirliði Atli Erlendsson, Árni Einarsson, Ævar Þorsteinsson, Jóhannes Karlsson, Gísli Klemensson og Svanur Eyþórsson. Liðið fékk gistingu sér að kostnaðarlausu í dojo í Gautaborg.
Laugardaginn 30. mars fór keppnin fram. Lið það sem keppt var við var einskonar B-lið Svía og voru liðsmenn þess frá Gautaborg og nágrenni. Meðal þeirra var einn úr silfurliði Svía frá heimsmeistaramótinu. Í sem stystu máli má segja að íslenska liðið hafi komið á óvart með framistöðu sinni. Kepptar voru þrjár umferðir. Þá fyrstu sigruðu Íslendingar glæsilega en tvær næstu unnu Svíar en naumlega þó. Úrslitin urðu því þau að Svíar báru sigur úr bítum þó mjótt væri á mununum. Þetta verður að teljast góð framistaða þegar tekið er tillit til þess að Svíar voru á heimavelli og með heimadómara. En það hefur sýnt sig að slíkt skiptir ekki svo litlu máli í keppnum á erlendri grund. Snemma morguns næsta dag varð liðið að halda af stað. Hluti þess var áfram í Svíþjóð við æfingar en hinir fóru heim á leið.
Ferð þessi hefur verið mikið gagnrýnd vegna kostnaðar við hana. En upphaflega var ætlunin að KAÍ greiddi allar ferðir en svo varð ekki því að landsliðsmenn þurftu að greiða sjálfir ferðir til og frá Gautaborgar auk uppihalds. Að mínu mati var þessi ferð gagnleg að því leiti að hún opnaði augu margra (landsliðsmanna og e.t.v. annarra) á því að við gætum sigrað erlenda andstæðinga.
Úr ársskýrslu KAÍ 1985..