Æfinga- og keppnisferð til London sumarið 1987
Fríður hópur ungmenna fjölmennti frá Karatefélagi Reykjavíkur, Stjörnunni og Baldri, um 40 manns, til London til að næla sér í visku meistarann.
Farið var laugardagskvöldið 28. ágúst en æfingabúðirnar áttu að hefjast 31. ágúst. fyrstu næturnar var því dvalið í dojoi, London Goju-Ryu Karate Center. Þó vorum við ekki alltaf á sama stað því alls fluttum við þrisvar á jafnmörgum dögum áður en á áfangastað var komið.
Áfangastaðurinn var Goldsmith’s College í suðaustur London, sem varla getur talist eitt af betri hverfum stórborgarinnar. Þjálfararnir voru þó ekki af verri sortinni. Aðalþjálfarar voru shihan Goshi Yamaguchi, 7. dan og shihan Ingo de Jong, 5. dan og þeim til aðstoðar voru Walter Sherholtser 4. dan og Conny Ferm 3. dan. Þá komu einnig til sögunnar meistarar frá S-Afríku en það stóð stutt yfir.
Fyrsti dagurinn fór forgörðum þar sem allir biðu þess að Goshi shihan kæmi á vettvang en honum seinkaði vegna flugsins. Daginn eftir var svo mótið og þar á eftir byrjuðu æfingarnar á fullu. Æft var tvisvar á dag í einn og hálfan til tvo tíma í senn. Fólki var skipt í flokka eftir gráðum og var síðan dreift um grundir Collegesins.
Eftir æfingar fannst mörgum gott að geta slakað á á ekta enskum pub eða skreppa í miðbæinn að skoða lífið eða e.t.v. til að kaupa vopn í vopnasafnið. Sumum fannst jafnvel svo gaman á pubbnum að þeir fóru jafnvel fyrir æfingar.
Síðasta daginn var gráðupróf. Þar gekkst Hannes Hilmarsson, Stjörnunni, undir gráðukröfur fyrir grænt belti og stóðst þær með sóma. Æfingabúðunum lauk síðar um daginn með smá kveðjuathöfn, þar sem Jónína Olesen afhenti fyrir hönd GKSÍ þjálfurum smá þakklætisvott. Haldið var heim 6. september en sumir notuðu tækifærið og héldu áfram að skoða ókunn lönd.
Í hópnum voru 10 börn undir vernd Jónínu. Ekki verður annað sagt en að sá hóður hafi verið landanum til mikils sóma þrátt fyrir nokkur smá ævintýri.
Stefán Alfreðsson