Karatefélag Reykjavíkur

Lög Karatefélags Reykjavíkur

1. gr.
Heiti

Félagið heitir Karatefélag Reykjavíkur, aðsetur þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.
Markmið

Tilgangur félagsins er að kenna og iðka karate og glæða áhuga almennings á íþróttinni og þeim gildum sem liggja að baki karate.

Félagið skal starfa faglega og af metnaði að starfrækslu fyrirmyndar íþróttafélags þar sem boðið er upp á handleiðslu bestu fáanlegu þjálfara með heilbrigði, vellíðan og framgang félagsmanna að leiðarljósi.

Félagið skal leggja áherslu á að halda uppi skipulögðum æfingum fyrir börn, ungmenni sem og fullorðna og stuðla að góðu og vönduðu æskulýðsstarfi þar sem áhersla er lögð á heilbrigt líf og forvarnir.

3. gr.
Aðild að heildarsamtökum

Félagið er aðili að Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR) og starfar samkvæmt lögum þess. Félagið skal vera aðili að alþjóðasamtökum Okinawa Goju-Ryu karate.

4. gr. 
Félagar

Allir skráðir iðkendur félagsins teljast vera félagsmenn. Félagi getur hver sá orðið sem óskar þess og greiðir félagsgjald. Félagsmenn geta líka verið þeir foreldrar eða forsjáraðilar barna sem eru skráðir iðkendur í félaginu.

5. gr.
Skipulag félags

Aðalfundur félagsins hefur æðsta vald í öllum málum þess. Stjórn félagsins er æðsti aðili í málefnum þess milli aðalfunda og mótar starfsemina í aðalatriðum.

6. gr.
Aðalfundur félagsins

Aðalfund félagsins skal halda eigi síðar en 15. maí ár hvert. Til aðalfundar skal boðað með minnst tveggja vikna fyrirvara á vefmiðlum félagsins. Hverjum félaga fylgir eitt atkvæði á aðalfundi og félagsfundum. Lögráða félagi fer sjálfur með sitt atkvæði. Einn forsjáraðili ólögráða félaga fer með atkvæði hans. Ólögráða félagi hefur rétt til fundarsetu á aðal- og félagsfundum, málfrelsi og tillögurétt.

Kjörgengi til embætta eru allir lögráða félagar og forsjáraðilar ólögráða félaga.

Aðalfundur félagsins er lögmætur sé löglega til hans boðað.

Dagskrá aðalfundar félagsins skal vera sem hér segir:

 1. Kosin þriggja manna kjörbréfanefnd.
 2. Kosinn fundastjóri og fundarritari
 3. Stjórn gefur skýrslu um starfsemi og framkvæmdir á liðnu starfsári.
 4. Stjórn gefur skýrslu um fjárhag félagsins og leggur fram reikninga liðins starfsárs.
 5. Stjórn leggur fram fjárhagsáætlun næsta árs.
 6. Ákvörðun félagsgjalda
 7. Lagabreytingar
 8. Kosin stjórn félagsins
 9. Kosinn skoðunarmaður reikninga

Á aðalfundi ræður meirihluti atkvæða úrslitum mála. Stjórn skal kosin skriflega nema aðeins komi fram ein uppástunga til stjórnarstarfa, þá telst sá/sú, sem tilnefndur er sjálfkjörin/n. Séu atkvæði jöfn, skal kosið að nýju. Fáist þá eigi úrslit, ræður hlutkesti.

7. gr. 
Aukaaðalfundur

Stjórn félagsins skal kalla saman aukaaðalfund, þegar þörf krefur. Skylt er að boða til slíks fundar ef að meirihluti stjórnar óskar þess eða að minnsta kosti 10 félagar. Beiðni um aukaaðalfund skal beina til aðalstjórnar og skal fylgja henni greinargerð um fundarefni.

Aukaaðalfundur er lögmætur sé til hans boðað og hann sóttur skv. 6. gr. þessara laga.

Aukaaðalfundur hefur sama vald og aðalfundur. Lagabreytingar og stjórnarkosning skulu þó ekki fara fram á aukaaðalfundi.

8. gr. 
Stjórn

Stjórn félagsins skipa 5 einstaklinga, formaður, gjaldkeri, ritari og tveir meðstjórnendur. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum. Varastjórn skipa tveimur einstaklingum. Aðalstjórn og varamenn í stjórn skulu kosið á aðalfundi félagsins, sbr. 6. gr., til eins árs í senn.

Stjórnin skal vinna að metnaði og í samræmi við stefnu félagsins á hverjum tíma. Stjórninni ber að gæta hagsmuna félagsins og iðkenda sinna. Hún hefur m.a. umráðarétt yfir eignum félagsins, boðar til funda, ákveður skipulag þjálfunar, þátttöku í mótum, setur reglur meðal annars um greiðsluþátttöku iðkenda á mótum, samskipta- og umgengnisreglur og sér um allan rekstur félagsins. Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund skal stjórn skipta með sér verkum milli stjórnarmanna félagsins, sbr. 1. mgr.

Meirihluti stjórnar félagsins getur umsvifalaust vikið hverjum þeim úr félaginu, sem gerist brotlegur við eftirfarandi:

 1. Greiðir ekki tiltekin gjöld félagsins.
  Gerist brotlegur við almenn hegningarlög.
  3.           Hegðar sér ósæmilega að mati stjórnar.
  4.           Sýnir af sér þá hegðun utan æfinga og kennslutíma að heiðri félagsins sé misboðið. Sérstaklega er stjórn félagsins skylt að víkja tafarlaust úr félaginu þeim sem misnotað hafa karate.

Áður en að brottvikningu kemur er stjórn skylt að boða viðkomandi á sinn fund og gefa honum kost á að verja mál sitt.

9. gr. 
Reikningsár og reikningsskil

Reikningsár félagsins skal vera almanaksárið. Endurskoðaðir og samþykktir reikningar skulu vera komnir til endurskoðenda félagsins og/eða skoðunarmanns reiknings, eigi síðar en 7 dögum fyrir aðalfund félagsins.

10. gr.
Niðurlagning félags

Verði félagið lagt niður skulu eignir þess renna til Íþróttabandalags Reykjavíkur til varðveislu.

11. gr. 
Lagabreytingar

Lögum þessum má ekki breyta nema á aðalfundi félagsins með auknum meirihluta atkvæðisbærra fundarmanna.

Tillögur um lagabreytingar stjórnar skulu boðaðar í dagskrá aðalfundar. Aðrar lagabreytingatillögur skulu sendar stjórn KFR að minnsta kosti 14 dögum fyrir boðaðan aðalfund.

12. gr. Gildistaka

Lög þessi öðlast þegar gildi og má aðeins breyta þeim á aðalfundi félagsins. Jafnframt eru felld úr gildi öll eldri lög félagsins.

Lögum félagsins var breytt á aðalfundi félagsins þann 16. maí, 2024