1970
Karateæfingar hefjast á Íslandi. Tveir Japanir kenna karate í 4 mánuði.
1971
Reynir Z. Santos kennir karate í Biskupstungum, Árnessýslu í 8 mánuði.
1972
Forsaga KFR er sú að á árinu 1972 byrjar Reynir Z. Santos að kenna áhugamönnum um karate tang soo doo muck kwan í húsakynnum Júdófélags Reykjavíkur í Skipholti. Litlu síðar færðu þeir sig í Baldurshagann og æfðu þar um stund en snemma á árinu 1973 fer Santos til Vestmannaeyja og byrjar þar með Karatefélag Vestmannaeyja.
1973
Karateáhugamennirnir færa sig í húsnæði að Laugavegi 178 og stofna þar Karatefélag Reykjavíkur 13. september 1973. Fyrsti formaður KFR var Ásgeir Hannes Eiríksson.
Fyrstu iðkendur karate á Íslandi. Reynir Santos stjórnar æfingunni.
Meðal annarra eru á myndinni Ásgeir Hannes Eiríksson, Andrés Hafliðason og Hannes Hilmarsson.
1974
Í september 1974 fengu þeir áhugamenn, sem æft höfðu tang soo do undir stjórn Reynis Santos frá 1972 og þangað til hann fór til Eyja um 1973, Japana að nafni Kenichi Takefusa, 2. dan í goju ryu-karate, til kennslu. Æfingar voru þá að Laugavegi 178. Þetta var upphaf goju ryu á Íslandi því að umsvifalaust var skipt um stíl. Ken, eins og hann var kallaður, var fæddur 1950. Hér kvæntist hann íslenskri konu og settist að. Af nemendum sínum var Ken mjög vel liðinn og talinn afburðakennari. Sensei Steve Cattle sagði einhverju sinni að eflaust hefðum við verið mjög heppnir að fá hann til kennslu og eftir lýsingum að dæma hefði hann verið mikill sensei og átt skilið hærri gráðu. Atli Erlendsson sem byrjaði í september 1974 þegar Ken hóf kennslu.
1975
Kenichi Takefusa í viðtali í sjónvarpssal 1975
Undir leiðsögn Kens blómstraði KFR og var 1975 flutt í Ármúla 28. Andrés Hafliðason verður næsti formaður KFR. Árni Einarsson hóf æfingar í september 1975.
Árið 1975 gefur Helgi Briem Magnússon út fyrstu bókina um karate á íslensku, “Karate fyrir byrjendur” þar sem hann fer yfir helstu grunnatriði Goju ryu stílsins og semur japanskan – íslenskan orðalista. Bókin er löngu ófáanleg en eitt eintak er til á Landsbókasafni.
1976
Sensei Kiruku kom til KFR árið 1976 en hann kenndi shotokai. Í ágúst 1976 gekkst Þorsteinn Viggósson fyrir komu danskra shotokan-manna til sýninga og mótahalds. Fremstur í flokki í þessum hópi var Masahiko Tanaka 6. dan sem varð heimsmeistari 1975 í Los Angeles. Í Danmörku var Tanaka þekktur fyrir mikla hörku í karatekennslu sinni og að margra dómi eiga Danir nú sterkustu karatemenn á Norðurlöndum þó að ekki gangi þeim vel á mótum. Æfingarnar hjá Tanaka voru svo harðar að mikið fækkaði í shotokan-félögum í Danmörku á árunum sem hann dvaldist þar en þeir sem héldu út urðu þeim mun harðari af sér.
Tanaka byrjaði æfingar 18 ára og var kominn með 4. dan 25 ára. Í viðtali við danskt karateblað segir Tanaka: „Leiðin að Japansmeistaratitlinum er bæði löng og erfið. Ég æfði af krafti því að ég var staðráðinn í að sigra. Ég sagði við sjálfan mig að þar sem ég æfði tvöfalt meira en nokkur annar hlyti mér að auðnast að sigra. Þegar mér voru svo afhent sigurverðlaunin á 17. Japanska meistaramótinu 1974 liðu í gegnum huga mér svipmyndir þrotlausrar þjálfunar undanfarin 15 ár. Í veislunni eftir mótsslitin fannst mér sem sake hefði aldrei bragðast svo vel.“
Aðrir menn í karatehópnum ´76 voru: Bura 4. dan, Bruno Jensen 3. dan, Willy Schönberg 2. dan, Peter Munck 2. dan, Nakawaza 1. dan og íslenskættuðu bræðurnir Marinó, 3. dan, og Páll, 2. dan, Guðjónssynir. Förina skipulagði Íslendingurinn Þorsteinn Viggósson sem þekktur er fyrir veitingarekstur sinn í Kaupmannahöfn en hann hefur 1. dan. Þann 19. ágúst var haldin budo-hátíð í Laugardalshöll og fyrst var á dagskrá Íslandsmót goju ryu og sigraði þar Sigurður T. Sigurðsson sem þá var 3. kyu en Siggi er kunnur fimleikamaður og stangarstökkvari og var fremstur í þeirri grein hérlendis, svo að honum er sannarlega margt til lista lagt. Annar varð þáverandi formaður KFR, Andrés Hafliðason 3. kyu, og þriðji Atli Erlendsson 2. kyu. Jökull Jóhannesson varð fyrstur í kata.
Síðan var júdósýning undir stjórn landsliðsþjálfarans Naoki 4. dan og loks barði Tanaka svolítið á dönsku köppunum og Bura braut nokkrar þakhellur (danskar). Svona stórheimsókn eins og þessi er mikið verkefni og verður ekki í framtíðinni nema allir leggist á eitt.
Karl Gauti Hjaltason hóf æfingar í KFR í ágúst 1976 en stofnaði síðan sjálfur ásamt fleirum KFÍ upp á nýtt 1979.
1977
Steinar Einarsson byrjaði í janúar 1977 og varð formaður KFR 1978 allt til ársins 1982.
Fyrsta innanfélagsmót KFR er haldið í apríl og annað mót í nóvember.
1978
KFR flytur í 1982 í nýtt húsnæði að Ármúla 36. Kenichi hætti kennslu smám saman á árunum 1977 – 78 og fengu KFR-ingar þá til landsins Japana að nafni Isao Sannomyia, 2. dan, en hann var við nám í Kaupmannahöfn. Isao kom hingað fjórum sinnum 1978 – 80.
Árið 1978 fór Andrés Hafliðason, sem þá var formaður, til Bandaríkjanna og náði þar stuttu síðar 1. dan í goju ryu og var hann fyrsti Íslendingurinn sem æfir hér á landi upp í svart belti.
Atli Erlendsson verður aðalþjálfari KFR. Steinn Einarsson er kosinn formaður.
1979
Atli fór til Danmerkur 1979 og má segja að það sé fyrsta utanlandsför í þeim tilgangi að æfa karate. Jónína Olesen hefur æfingar í september.
1980
Sumarið 1980 fara svo fjórir kappar úr KFR og einn úr KFA í „víking“ til Japan. Þetta voru þeir Atli Erlendsson, Árni Einarsson, Steinar Einarsson og Stefán Alfreðsson og Magnús Sigþórsson frá Karatefélagi Akureyrar. Þar dvöldust þeir í einn mánuð og náðu allir shodan hjá sensei Ishigoka, 7. dan í goju ryu, 4. ágúst 1980. Þeir kepptu einnig í Japan en litlar sögur fara af þeirri keppni.
Japansfararnir í Akita. Árni, Steinar, Atli og Magnús frá KFA. Ishigoka 2.f.v. í fremstu röð.
Stefán tók myndina.
1981
Sumarið 1981 fékk KFR inngöngu í Íþróttabandalag Reykjavíkur.
Karatedagurinn haldinn 15. ágúst í samvinnu Shotokan og Goju Ryu. Sýnt er frá deginum í sjónvarpi. Í KFR æfðu reglulega um 100 manns og félagar voru yfir 200 talsins.
1982
Vorið 1982 fékk KFR hingað til lands Brian Waites 5. dan og var hann hér í nokkra daga við kennslu. Brian er einn þekktasti kennari Bretlands í Goju Ryu og álitinn mjög harður kennari. Hann hafði gríðarleg áhrif á alla sem æfðu hjá honum.
Á myndinni má þekkja, f.v. Helga Briem Magnússon, Bjarna Jónsson, Steinar Einarsson, Ómar Ívarsson, Árna Einarsson, Hjalta Árnason, Ásgeir Ólafsson, Sigurð Grétarsson, ?, ?,Kristrúnu , Helga Þórhallsson, Örn Rósinkransson og Sigríði Radomirsdóttir. Í forgrunni eru Sensei Brian Waites og Atli Erlendsson.
KFR gefur út Fréttablað KFR, 10 síður í A5 stærð. Blaðið fær háðuglega umfjöllun í Karateblaðinu sem gefið er út að Shotokan félaginu og er kallað “Bækl-ingurinn” þar sem ein síðan er laus í blaðinu. 2. tölublað er gefið út um haustið og er nú tekið upp nafnið Bæklingur-inn og er blaðið enn 10 síður en nú í stærð A4 og heft.
Í Sveitakeppni karatefélaga 9. apríl sigrar A-sveit KFR. Í henni voru: Atli Erlendson, Árni Einarsson,Stefán Alfreðsson, Helgi Þórhallsson, og Ómar Ívarsson. Atli Erlendsson, Árni Einarsson frá KFR og Ólafur Wallevik frá SKF taka þátt í Norðurlandamótinu í Karate í Finnlandi 23. ágúst.
Sameiginlegar karate-æfingabúðir á Selfossi í september 1982. Þátttakendur komu frá öllum félögum og voru kennarar Árni Einarsson, 2. dan KFR og Karl Gauti Hjaltason, 1. dan SKF. 43 þátttakendur voru á æfingabúðunum en Hannes Hilmarsson hafði veg og vanda að þeim.
KFR hélt tvö innanfélagsmót á árinu, í apríl og desember.
Atli Erlendsson og Árni Einarsson, báðir 2. dan, voru í lok ársins 1982 sæmdir heiðursorðunni „Dómgæsla 1982“.
Síðan 1980 hafa KFR-ingar sjálfir annast alla kennslu í félaginu og var aðalkennari þar Atli Erlendsson 2. dan og var hann kominn lengst allra Íslendinga í karate. Atli var 24 ára gamall og hafði æft sleitulaust síðan 1974.
Formenn KFR 1973 – 1982.
Ásgeir Hannes Eiríksson 1973-1975
Andrés Hafliðason 1975-1978
Steinar Einarsson 1978-1982
Árni Einarsson 1982
Unnið upp úr “Kaflar úr Karatesögu Íslands” eftir Karl Gauta Hjaltason, sem birtist í Karateblaðinu 1983 og “Karatefélag Reykjavíkur 20 ára” eftir Stefán Alfreðsson sem birtist í Karatepóstinum 1993..